Tuesday, May 19, 2009

Er heimasíðan þín gagnvirk?


Kannanakerfi eru meðal þeirra nýjunga, sem skotið hafa upp kollinum á frétta-, spjall- og bloggsíðum undanfarin misseri, og jafnvel á vefsíðum fyrirtækja. Fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök hafa augljósan hagnað af þessum skemmtilega möguleika, sem tengir þau við lesendur, fjölgar heimsóknum og aflar ef til vill upplýsingar um eitthvað, sem betur mætti fara.

Skoðanakönnun er góð leið til að gera heimasíðu fyrirtækis gagnvirka. Þannig getur það fengið fram skoðanir lesenda á fyrirtækinu, vefsíðunni, einstaka vörutegundum, þjónustu eða einhverjum álitamálum. En hafa ber í huga, að nauðsynlegt er að skipta reglulega um könnun.

Rafrænar kannanir geta verið af ýmsum toga, en mikilvægast er, að standa vel að efni og uppsetningu þeirra, kynna þær með áberandi hætti á vefsíðunni og helst einnig á vinsælum samfélagssíðum, t.d. Facebook. Jafnframt væri hægt að umbuna heppnum þátttakendum með einhverjum hætti til að auka áhuga þeirra.

Að kanna hug lesenda með þessum hætti er ekki svo frábrugðið því að gera könnun um fylgi stjórnmálaflokka. Niðurstöðurnar gefa til kynna, hver staðan er og hvað betur mætti fara. En hvað vefkannanir snertir þarf að nota þær rétt, spyrja réttra spurninga og vinna á faglegan hátt úr niðurstöðunum.

Ef spurningar vakna, bendum við lesendum á, að leita til sérfræðinga, því mestur árangur næst með fagmennsku í fyrirrúmi.