Saturday, August 16, 2008

Með svartan hatt á hausnum


Á verksviði internetráðgjafar, og sér í lagi leitarvélabestunar, hefur hugtakið "spamdexing" (sett saman úr "spam" og "indexing") orðið tiltölulega útbreitt. Slíkur verknaður hefur jafnframt breiðst út og tekið á sig hinar furðulegustu myndir.


Þessi hegðun hefur verið nefnt "black hat" (svartur hattur), vísast í höfuðið á vondu köllunum úr vestrunum, en þeir báru oft svarta hatta, meðan góðu gæjarnir höfðu hvíta eða ljósa. Þetta nafn hefur jafnframt verið notað um "hakkara" og þá sem breiða út vírusa.


En í öllu falli er þessi hegðun óásættanleg og siðlaus. Menn geta gripið til ýmissra aðgerða til að auglýsa upp vefsíður, sínar eigin eða annarra, en menn verða að hafa ákveðin takmörk. Það er ekkert að því, beinlínis, að nota allar leyfilegar aðgerðir til að þrykkja upp vefsíðum í leitarniðurstöðukerfi Google og annarra leitarvéla, en þegar menn eru í örvæntingu farnir að setja á sig svarta hattinn, þarf að hugsa málin upp á nýtt.


Einn þáttur í þessu er svokallað "link spam", þar sem settir eru inn linkar þar sem þeir eru ekki sýnilegir vökulum augum gesta. Slíkt er yfirleitt gert á eigin síðum, en steininn tekur úr þegar slíku er troðið inn á síður annarra.


Ég heyrði nýlega af því, þegar ákveðið fyrirtæki veitti því athygli að kassi með upplýsingum um það vefsíðufyrirtæki, sem hafði skaffað því vefumsjónarkerfi, birtist með áberandi hætti á síðu þeirra, forsíðunni, ef ég man rétt. Þar var semsagt "linkað" á heimasíðu vefsíðufyrirtækisins og athygli vakin á vefumsjónarkerfi þess.


Fyrirtækið kvartaði að sjálfsögðu og fékk það svar, að "kassinn átti að vera ósýnilegur." Hann átti ekki að sjást. Með öðrum orðum: Fyrirtækið var að svindla.


Ég veit ekki hvort Lísa verður lengi í Undralandi eftir þessi viðskipti eða hvort vefsíðan verður "innn" mikið lengur, en Hr. Llikse þarf að hugsa sinn gang, ef þetta er algeng framganga hjá fyrirtækinu.


No comments: