Vel unnin internetráðgjöf sparar fyrirtækjum bæði tíma og fjármuni.
Sum fyrirtæki sjá ekkert athugavert við að greiða hundruðir þúsunda króna fyrir heilsíðuauglýsingu í dagblaði. En næsta dag er auglýsingin farin og týnd sjónum manna.
Sum fyrirtæki, sem svo auglýsa, vilja hins vegar spara eins og heimurinn sé að farast þegar kemur að internetráðgjöf og heimasíðu viðkomandi.
Þetta hugarfar er dálítið skrítið, því heimasíður fyrirtækja eru besta og ódýrasta auglýsingatæki samtímans, að minnsta kosti þegar litið er til lengri tíma. Vöxtur internetsins hefur verið gríðarlegur og það færist sífellt í aukana að neytendur leiti sér varnings á netinu, þar eð finni þá vöru og það verð sem það vill, áður en farið er af stað til að versla.
Það kemur m.a. til af hækkandi bensínverði, en þó vísast enn frekar sökum þess að fólk hefur minni tíma en áður til að ferðast á milli verslana og þjónustuaðila til vöruskoðunar. Því nota menn vinnutímann eða rólegar kvöldstundir til að taka saman lista yfir þá staði, sem koma til greina. Þessi þægindi koma m.a. til þegar fyrirtæki birta vörulista á heimasíðu sinni, ráða yfir vörukerfi eða jafnvel vefverslun.
Með því að vera sýnilegir í leitarvélum ná fyrirtæki að auglýsa vörur sínar og þjónustu á einfaldan, þægilegan og árangursríkan hátt. Þannig koma neytendur inn á heimasíðuna og geta þá, ef ve er staðið að málum, fundið með fljótum hætti þær upplýsingar, sem leitað er að.
Slíkt kallast leitarvélabestun (SEO) eða leitarvélagreining og fellur undir starfsvið internetráðgjafa.
Auglýsingar í t.d. sjónvarpi, dagblöðum eða tímaritum geta vissulega skilað miklu, sér í lagi þegar um sértækan atburð er að ræða, s.s. útsölu, tilboð, nýjar vörur eða þess háttar. En til langs tíma borgar það sig margfalt að virkja heimasíðuna til hins ítrasta og ná eins miklu úr þessum áhrifamikla og vinsæla miðli og kostur er.
No comments:
Post a Comment