Sunday, September 7, 2008

Leitarvélabestun og internetráðgjöf enn á ný



Internetráðgjöf skilar árangri!

Ég fjallaði í morgun um, á öðru bloggi mínu, hve hagkvæmt það sé að hafa öll helstu lykilorð fyrirtækis hvert um sig á sérstakri síðu, með sérstakri slóð, þar sem lykilorðið kemur fyrir í url-slóð síðunnar.

Þetta atriði er ekki mjög þekkt í internet ráðgjöf, en engu að síður mjög mikilvægt, a.m.k. samanborið við reynslu þess, sem þetta ritar.


Þar nefndi ég að blogg mitt um Leitarvélagreiningu rauk á toppinn fyrir það lykilorð á innan við viku, þrátt fyrir að síðan væri ný af nálinni (gamlar síður virka betur í Google) og að sá aðili, sem byrjaði með þetta orð, í staðinn fyrir "leitarvélabestun", hafi einokað efsta sætið mjög lengi.


En slík síða gerir meira en bara að rjúka á toppinn. Hún lyftir upp "móðursíðunni" með því að setja inn nokkra valda og vel orðaða tengla á viðkomandi undirsíður á því vefsvæð. Það gerir hana verðmeiri á Google, sér í lagi ef móðursíðan "linkar" ekki til baka.


Dæmi um þetta má finna hvað snertir þessa síðu, fyrir "lykilorðabestun". Hún rauk auðvitað á toppinn, eins og gerðist með Leitarvélagreiningu, en þar eð ég linka héðan stöku sinnum og með vel orðuðum hætti á stutta umfjöllun mína um þetta lykilorð á heimasíðu Allra Átta og ekki "linkað" til baka, hefur sú síða styrkst á tenglinum héðan (sbr. myndina efst til hægri).

Já, Allra Átta síðan er efst, en þar á eftir koma síðurnar mínar héðan frá þessu bloggi.

Á þessum 1-2 vikum, sem liðnar eru síðan ég þrykkti síðunum mínum efst á niðurstöðusíður Google fyrir ákveðin lykilorð, hafa langtum fleiri haft samband með fyrirspurnir um viðkomandi en áður, og, það sem meira er, verkefnum hefur fjölgað.

Internetráðgjöf virkar þegar menn vita hvað þeir eiga að gera og nenna að gera það.

P.S. Takið eftir hvernig ég "linka" hér í þessum pistli, ásamt því að nota feitletrun.

Tuesday, September 2, 2008

Google Chrome: nýr "open source" vafri


Jæja, þá er Google vafrinn loksins kominn í kynningu, amk tilkynningu. Maður getur varla beðið eftir að prófa hann sjálfur.


Ég minntist á hann tvisvar í morgun á öðrum stöðum, annars vegar á fréttasíðu Allra Átta og hins vegar á persónulegu bloggi mínu, þar sem ég gef upp ýmsar slóðir og bendi á umræðu úti í hinum stóra heimi.

En hitt er svo annað mál, að ég set alltaf fyrirvara við kerfi sem kynnt eru sem "open source". En vonandi verður þetta Open Source kerfi Google betra en sum önnur, sem ég kannast við, s.s. Mambo og Joomla!

Síðan verður spennandi að sjá hvaða Google-fítusar verða innbyggðir í kerfið, svo sem hvað snertir leitarvélavirkni, SEO og SEM, og þess háttar.

Saturday, August 30, 2008

Er internet ráðgjöf tilgangslaus?


"Internetráðgjöf er tilgangslaus."

Ég fékk fullyrðingu þessa efnis beint framan í mig nýlega. Ég svaraði henni á öðru bloggi mínu hér, Leitarvélagreiningu.

Nei, ég vil halda því fram að internet ráðgjöf skili fyrirtækjum og öðrum margfalt til baka, ekki síst þegar til langs tíma er litið.

Internetráðgjöf er fjárfesting til framtíðar. Ef vefsíða þín er góð, gerir hún hana enn betri. Og hún gerir slæma síðu að góðri síðu.

En heilræði dagsins eru tvö:

1. Hafðu ljósmyndir á vefsíðu þinni faglega unnar og með "réttu" nafni.
2. Vefsíða án ríkulegs efnisinnihalds er eins og líkami án sálar.

Thursday, August 28, 2008

Internetráðgjöf: Ódýr auglýsing eða bruðl?


Vel unnin internetráðgjöf sparar fyrirtækjum bæði tíma og fjármuni.


Sum fyrirtæki sjá ekkert athugavert við að greiða hundruðir þúsunda króna fyrir heilsíðuauglýsingu í dagblaði. En næsta dag er auglýsingin farin og týnd sjónum manna.


Sum fyrirtæki, sem svo auglýsa, vilja hins vegar spara eins og heimurinn sé að farast þegar kemur að internetráðgjöf og heimasíðu viðkomandi.


Þetta hugarfar er dálítið skrítið, því heimasíður fyrirtækja eru besta og ódýrasta auglýsingatæki samtímans, að minnsta kosti þegar litið er til lengri tíma. Vöxtur internetsins hefur verið gríðarlegur og það færist sífellt í aukana að neytendur leiti sér varnings á netinu, þar eð finni þá vöru og það verð sem það vill, áður en farið er af stað til að versla.


Það kemur m.a. til af hækkandi bensínverði, en þó vísast enn frekar sökum þess að fólk hefur minni tíma en áður til að ferðast á milli verslana og þjónustuaðila til vöruskoðunar. Því nota menn vinnutímann eða rólegar kvöldstundir til að taka saman lista yfir þá staði, sem koma til greina. Þessi þægindi koma m.a. til þegar fyrirtæki birta vörulista á heimasíðu sinni, ráða yfir vörukerfi eða jafnvel vefverslun.


Með því að vera sýnilegir í leitarvélum ná fyrirtæki að auglýsa vörur sínar og þjónustu á einfaldan, þægilegan og árangursríkan hátt. Þannig koma neytendur inn á heimasíðuna og geta þá, ef ve er staðið að málum, fundið með fljótum hætti þær upplýsingar, sem leitað er að.


Slíkt kallast leitarvélabestun (SEO) eða leitarvélagreining og fellur undir starfsvið internetráðgjafa.


Auglýsingar í t.d. sjónvarpi, dagblöðum eða tímaritum geta vissulega skilað miklu, sér í lagi þegar um sértækan atburð er að ræða, s.s. útsölu, tilboð, nýjar vörur eða þess háttar. En til langs tíma borgar það sig margfalt að virkja heimasíðuna til hins ítrasta og ná eins miklu úr þessum áhrifamikla og vinsæla miðli og kostur er.

Wednesday, August 27, 2008

Internet ráðgjöf




Við gerum okkur ljóst, að nú til dags þurfa fyrirtæki og félagasamtök ekki aðeins að koma sér upp vefsíðum og búa þær vefumsjónarkerfi, heldur þurfa þær að skila tilætluðum árangri og skila andvirði fjárfestingarinnar og helst einhverjum arði.


Fallegasta og best útlitshannaða vefsíða landsins gagnast eigendanum lítið og illa, ef netverjar annað hvort vita ekki af síðunni eða sjá ekki ástæðu til að heimsækja hana. Því er það afar áríðandi fyrir vefsíðueigendur, sérstaklega fyrirtæki, að standa vel að kynningu síðunnar á vefnum.

Það er þar, að internet ráðgjöf og leitarvélavinnsla margs konar koma til sögunnar.


Með það í huga má benda á nokkur atriði varðandi internet ráðgjöf:



Endilega leitaðu frekari upplýsinga á tenglasíðunum hér að ofan eða hafðu samband.

Lúmskar ástæður árangursleysis í leitarvélabestun




Jæja, "strákarnir okkar" koma heim í dag. Þeir stóðu sig svona vel, að eigin sögn, vegna þess að þeir lögðu á sig mikla vinnu og höfðu rétt hugarfar.


Sömu lögmál gilda í raun varðandi leitarvélabestun / leitarvélagreiningu.


Ég fékk í gær senda "frétt", eða öllu heldur grein, um fimm helstu ástæður þess að vefsíður ná litlum eða engum árangri á Google og öðrum leitarvélum. Þær fjalla í meginatriðum um kóða og tengd atriði.


Ég mæli með að áhugasamir lesi þessa grein.


Fleiri atriði mætti síðan nefna, t.d. slök notkun leitarorða ("keywords"), slök SEO vinna (þ.e. slök leitarvélabestun / leitarvélagreining) rýrt efnisinnihald og óskipulögð uppsetning texta

Monday, August 25, 2008

Skilar heimasíðan þín árangri?


Hvernig virkar heimasíðan þín? Færðu margar heimsóknir? Hafa lesendur síðunnar samband við þig?
Ef þú rekur árangursríka heimasíðu, sem fær fjölda heimsókna og jafnvel töluverð viðskipti, þarftu vísast ekki að lesa lengra.


En ef þú heldur úti heimasíðu, sem fáir lesa og nær ekki til gesta með vöru, þjónustu eða upplýsingar, ættirðu ef til vill að halda áfram. Heimasíður eru nauðsynlegar hverju fyrirtæki og því mikilvægt að hafa málin í lagi.


Hvað á ég að gera til að heimasíðan mín skili árangri?


Það er í raun engin ein formúla til. Árangursrík heimasíða kostar mikla vinnu og reglulega umönnun. Heimasíðugerð er alls ekki einföld, jafnvel ekki með hjálp "tölvunörda" eða fyrirtækja, sem selja slíka þjónustu. En rétt til að veita lágmarks hjálp má ef til vill benda á nokkur atriði:


1. Notarðu gott vefumsjónarkerfi?
Ef svarið er nei, mæli ég eindregið með að þú veltir því alvarlega fyrir þér að fjárfesta í
notendavænu kerfi, sem reynst hefur vel, er búið öllum helstu verkfærum (vefmælingu, þægilegu og einföldu vinnusvæði, einföldum stilingarskipunum, o.s.frv.) og hefur möguleika á innsetningu viðbótarlausna.
Jafnframt, ef þú ert ekki ánægður með núverandi vefumsjón er þér að sjálfsögðu velkomið að
hafa samband og reyna sjálfur, hvort betra kerfi sé ef til vill fyrirliggjandi.



2. Kanntu að koma heimasíðunni þinni á framfæri?
Heimasíða, sem nær ekki athygli netverja, skilar vart eiganda hennar tilætluðum árangri. Internetið er frumskógur, sem erfitt er að rata um og margar gildrur liggja í leyni, tilbúnar að grafa heimasíðu þína innan um hundruðir milljóna annarra, sem ekki hafa náð að koma sér á framfæri.


Ýmsar mismunandi leiðir hafa verið farnar til að koma heimasíðum, eða vefsíðum, á framfæri. Sumar þeirra eru ómarkvissar og skila litlum árangri, t.d. að kaup á auglýsingu í prentmiðli. Slík auglýsing er dýr, varir stutt og þar fyrir utan les fólk ekki prentmiðla með slík atriði í huga. Heimasíður ná mestri athygli ef þær eru auglýstar eða kynntar á sama vettvangi, þ.e. á netinu sjálfu.


En til að rata um frumskóg tilboða og gylliboða er vísast best að leita aðstoðar internetráðgjafa, sem getur leiðbeint þér á réttar slóðar og hjálpað til við að gera heimasíðuna þína markvissari, notendavænni og sýnilegri á vefnum.

3. En er heimasíðan þín tilbúin fyrir aukinn sýnileika?
Um 1994 töldu sérfræðingar í heimasíðugerð að forgangsatriðið væri að fylla síður af tenglum, svo gestir kæmu þangað til að finna einhverjar aðrar síður og myndu vonandi staldra við um stund. En fljótlega áttuðu menn sig á, að þessi stefna skilaði eigendum heimasíðna litlum eða engum árangri.
Næst fengu margir sérfræðinga þá randaflugu í höfuðið að ofurflottar ("cool") vefsíður væru svarið og sumir vefhönnuðir eru enn þeirrar skoðunar. Flestir hafa þó áttað sig á, að allskonar grafískar tiktúrur skemma síðuna, einkum ef þær eru notaðar í of miklum mæli, ekki síst þar eð Google hafnar slíkum síðum á báðar hendur, af mörgum og mjög augljósum ástæðum.


Næsta skref var að útbúa netsamfélög með
bloggi, spjallstöðvum og öðru slíku, því þá kæmu gestir inn á síðuna til að kjafta við vini sína eða eignast nýja. Fljótlega sáu menn, að þetta skilaði engu, því efnisatriði vefsíðunnar náðu ekki athygli.

Nú síðast áttuðu menn sig á, að efnisinnihald síðunnar skiptir mestu máli. Einföld og þægileg uppsetning, góður og vel uppsettur texti væri svarið. Hin atriðin væru nothæf upp að ákveðnu marki, en án ríks efnisinnihalds væri vefsíðan gagnslaus.


Það er einmitt málið. Hefurðu eitthvað fram að færa? Hefurðu upp á eitthvað merkilegt að bjóða? Veitirðu upplýsingar, sem netverjar leita að?


En því miður virðast sumir vefsíðueigendur hvorki hafa hæfni né reynslu til að safna saman upplýsingum, flokka þær og setja upp markverðan texta til að efla gildi heimasíðunnar og gera hana jafnframt leitarvélavænni? Það er ekkert til að skammast sín fyrir. Flestir rithöfundar eru vísast afar slakir í t.d. bifvélavirkjun eða öðru slíku.


Þetta hlýtur að vera spurning um sérhæfingu, þar sem best er að láta fagmenn vinna verkið á hverju sviði.
Skrifað fyrir Allra Átta, dálítið stytt.

Tuesday, August 19, 2008

Heilsuskýrslur fyrir vefsíður


Í vor hóf Allra Átta að auglýsa svokallaðar heilsuskýrslur, þar sem sérfræðingar fara yfir vefsíður fyrirtækja og gera úttekt á þeim með ýmsum hætti. Eigum við ekki að segja, að ég hafi komið dálítið að gerð þeirra.


Tilraunasala heilsuskýrslanna stóð yfir í tæpar þrjár vikur og seldust á þeim tíma vel yfir 50 skýrslur. Salan var síðan send í salt, en mun hefjast aftur í haust af fullum þrótti.


Þótt ég sé alls ekki hlutlaus í þessu máli get ég með góðri samvisku fullyrt, að slíkar skýrslur eru nauðsynlegar fyrir fyrirtæki, bæði þau sem telja að vefsíður þeirra séu í góðu standi og hinna, sem þora ekki að fullyrða það. Þarna eru meðal annars gerðar athugasemdir við útlit og hönnun, notkun ljósmynda og annars myndefnis, framsetningu og efnistök, stafsetningu og málfræði, auk atriða sem snerta SEO ( leitarvélabestun / leitarvélagreiningu).


Jafnframt er almennt rætt um þætti sem falla undir internetráðgjöf (eða internet ráðgjöf eins og sumir kalla þetta sérfræðisvið) og þá hluti almennt sem gera það að verkum að heimasíður finnast illa á Google með helstu leitarorð sín, eða ná ekki að halda kúnnum vegna galla á útliti eða framsetningu efnis.


En í öllu falli hafa viðbrögðin verið góð og hafa fyrirtæki, eða öllu heldur stjórnendur þeirra, jafnan verið fullkomlega ánægðir með skýrsluna. Nokkrir hafa beðið um nánari skýringar á einstaka atriðum, aðallega hvað snertir stafsetningarvillur og málfræði, þar eð margir telja sig fullfæra á slíkum sviðum en reynast svo hafa fram að færa slakan texta.


Eitt fyrirtæki t.d. hafði ráðið sérstakan prófarkalesara til að lesa yfir textann og gera hann skotheldan. Það reyndist ekki vera. Prófarkalestur viðkomandi var reyndar ágætur á köflum, en hann sleppti í gegn frekar áberandi stafsetningarvillum sem ég hafði fundið og því lækkað einkunnina í samræmi. Síðan voru aðrir sem höfðu "textasmiði" í fullu starfi en gátu engu að síður ekki komið textanum skilmerkilega til skila.



En í öllu falli hafa þessar skýrslur reynst vel og kaupendur þeirra ánægðir, enda hefur enginn þeirra nýtt sér 30 daga skilafrest og endurgreiðslu.


Endilega hafðu samband og fáðu heilsuskýrslu fyrir vefsíðuna þína.


Saturday, August 16, 2008

Með svartan hatt á hausnum


Á verksviði internetráðgjafar, og sér í lagi leitarvélabestunar, hefur hugtakið "spamdexing" (sett saman úr "spam" og "indexing") orðið tiltölulega útbreitt. Slíkur verknaður hefur jafnframt breiðst út og tekið á sig hinar furðulegustu myndir.


Þessi hegðun hefur verið nefnt "black hat" (svartur hattur), vísast í höfuðið á vondu köllunum úr vestrunum, en þeir báru oft svarta hatta, meðan góðu gæjarnir höfðu hvíta eða ljósa. Þetta nafn hefur jafnframt verið notað um "hakkara" og þá sem breiða út vírusa.


En í öllu falli er þessi hegðun óásættanleg og siðlaus. Menn geta gripið til ýmissra aðgerða til að auglýsa upp vefsíður, sínar eigin eða annarra, en menn verða að hafa ákveðin takmörk. Það er ekkert að því, beinlínis, að nota allar leyfilegar aðgerðir til að þrykkja upp vefsíðum í leitarniðurstöðukerfi Google og annarra leitarvéla, en þegar menn eru í örvæntingu farnir að setja á sig svarta hattinn, þarf að hugsa málin upp á nýtt.


Einn þáttur í þessu er svokallað "link spam", þar sem settir eru inn linkar þar sem þeir eru ekki sýnilegir vökulum augum gesta. Slíkt er yfirleitt gert á eigin síðum, en steininn tekur úr þegar slíku er troðið inn á síður annarra.


Ég heyrði nýlega af því, þegar ákveðið fyrirtæki veitti því athygli að kassi með upplýsingum um það vefsíðufyrirtæki, sem hafði skaffað því vefumsjónarkerfi, birtist með áberandi hætti á síðu þeirra, forsíðunni, ef ég man rétt. Þar var semsagt "linkað" á heimasíðu vefsíðufyrirtækisins og athygli vakin á vefumsjónarkerfi þess.


Fyrirtækið kvartaði að sjálfsögðu og fékk það svar, að "kassinn átti að vera ósýnilegur." Hann átti ekki að sjást. Með öðrum orðum: Fyrirtækið var að svindla.


Ég veit ekki hvort Lísa verður lengi í Undralandi eftir þessi viðskipti eða hvort vefsíðan verður "innn" mikið lengur, en Hr. Llikse þarf að hugsa sinn gang, ef þetta er algeng framganga hjá fyrirtækinu.


Friday, August 15, 2008

Kreppan, netverslun og leitarvélabestun


Kreppan er komin. Samdráttur á flestum sviðum. Verðhækkanir víðast hvar. Verðbólga, atvinnuleysi, taprekstur fyrirtækja og heimila, verðbréfahrun, bensínokur, fjármálavandræði.

Hvar ætlar þetta að enda?

Þetta ástand snertir auðvitað vefverslun og markaðssetningu á internetinu, bæði til góðs og ills.

Það slæma er, að verslun almennt hefur dregist saman og á vísast eftir að dragast saman enn frekar. Það hlýtur að koma niður á netverslun eins og annarri verslun.

En á hinn bóginn býður þetta ástand upp á ákveðin sóknarfæri.


Netverslun

Netverslun hefur ákveðin sóknarfæri, af mörgum ástæðum. Neytendur hafa ekki lengur sérlega mikinn frítíma til að flakka á milli verslana eða verslunarmiðstöðva. Það tekur tíma, nú þegar umferð er mikil og fjarlægðir meiri en áður. Jafnframt gerir hækkandi bensínverð venjulegu fólki erfiðara fyrir en áður.

Netverslun á því mikla sóknarmöguleika. Sífellt fleiri fyrirtæki hafa nú sett upp vörulista á vefsíður sínar, boðið fram einfalda og þægilega leið fyrir neytendur til að skoða þá vöru, sem er í boði, og jafnvel kaupa vöruna beint af netinu í netverslunarkerfum.

Þetta er vissulega bæði þægileg og einföld leið fyrir hinn almenna neytenda; sparar tíma og vísast fjármuni jafnframt.

En til þess að neytendur geti keypt vöru af verslun ákveðins fyrirtækis þarf það að tryggja að vefsíðan sé sýnileg á vefnum, helst á fyrstu niðurstöðusíðu leitarvéla fyrir öll helstu lykilorðin.


Sýnileiki á vefnum

En hvað þurfa fyrirtæki að hafa í huga, þegar kemur að sýnileika á vefnum? Í fyrsta lagi er afar nauðsynlegt að fá vefsíðu sína birta á fyrstu niðurstöðusíðu leitarvélar, einkum Google, fyrir öll helstu leitarorðin. Samkvæmt mælingu völdu notendur að slá fyrst á þann hlekk, sem var í eftirfarandi sæti, frá 1-10.

  1. 30%
  2. 15%
  3. 7%
  4. 5%
  5. 4%
  6. 4%
  7. 2%
  8. 2%
  9. 3%
  10. 5%


En það komast ekki allar góðar síður á fyrstu niðurstöðusíðu, en jafnvel þótt um a.m.k. 70% notenda láti sér jafnan nægja að heimsækja síður á fyrstu síðu, vilja sumir halda áfram, af ýmsum ástæðum og ef þeir gera það á annað borð, er ekki svo ólíklegt að þeir slái að minnsta kosti á efstu niðurstöðurnar þar, frá 1-4.

  1. 6%
  2. 4%
  3. 2%
  4. og neðar: innan við 1%

Staðreyndin er, að vefsíður sem ekki finnast á fyrstu 20 niðurstöðunum, þ.e. á 1. og 2. blaðsíðu niðurstöðusíðnanna, eru í raun nánast ósýnilegar.

En hvað er þá til ráða? Það er þarna, að leitarvélabestunin kemur til sögunnar. Með leitarvélabestun (SEO) geta fróðir frömuðir og sérstaklega þjálfaðir internetráðgjafar hjálpað fyrirtækjum að gera vefsíður þeirra sýnilegri.

Vantar þig hjálp internetráðgjafa við leitarvélabestun?


Thursday, August 14, 2008

SEO fyrir byrjendur


Það var fyrir nokkru, að einn af þekktustu internetráðgjöfum landsins innleiddi nýtt orð yfir SEO, þegar leitarvélabestun vék fyrir leitarvélagreiningu.
Ég hafði engan áhuga á þessu orði; fannst óþarfi að rugga bátnum þegar leitarvélabestun væri orðið grundvallað í fræðunum.

En ég ákvað þó núna, 11. ágúst, að setja "leitarvélagreiningu" inn í keywords síðu þess fyrirtækis, þar sem ég er að vinna sem internetráðgjafi. Ég tengdi það við textainnihald, linkaði og sendi inn í Google.
En svona er þetta nú bara:

Faktískt enginn munur.

Greiningin var mér ekki hagstæð. Ég man ekki hve margar síður koma upp á Google með leitarvélagreiningu hjá heimasíðu umrædds internetráðgjafa, amk tuttugu eða þrjátíu, jafnvel fleiri. Síðan sem ég er að vinna í hefur engan slíkan munað, en leggur áherslu á leitarvélabestun í staðinn. Þetta virtist ómögulegt.

En hvað gerðist? Morguninn eftir hafði vefsíðan komist í 4. sæti fyrir leitarvélagreiningu, en umræddur ráðgjafi átti síður í 2-3 sæti. Degi síðar, nú eldsnemma í morgun, hafði síðan "mín" komist í 1. og 2. sæti. Það tók aðeins tvo daga að koma síðunni í tvö efstu sætin á Google fyrir þetta uppáhaldsorð umrædds internetráðgjafa.

En sterkasta vígi hans var fallið á aðeins tveimur dögum. En ég efa ekki að hann mun snúa vörn í sókn og endurheimta efsta sætið, því ég hef margt betra að gera en að standa í SEO-keppni! Hann má því mín vegna taka þetta sæti aftur. En gaman að hafa náð að komast á toppinn, jafnvel þó það verði aðeins um stundarsakir!

Tuesday, August 12, 2008

Leitarvélabestun (SEO)




Margt má segja og skrifa um leitarvélabestun (leitarvélagreiningu), en þessi tvö orð tákna það hugtak, sem á ensku nefnist SEO (Search Engine Optimization).


En hvað stendur þetta fyrir í raun?


Leitarvélabestun snýst um, að útbúa ákveðna vefsíðu (heimasíðu) með þeim hætti, að leitarvélar telji þær mikilvægar, gefi þeim góða einkunn og setji síðan ofarlega (eða helst efst) á niðurstöðulista sinn. Samkvæmt mælingum og rannsóknum skoða vefleitendur jafnan aðeins fyrstu niðurstöðu og því skiptir máli að standa vel að málum.


En til að fá leitarvélar til að hlaða undir ákveðna vefsíðu þarf að vita hvernig þær starfa. Vinnsla þeirra er þannig, að þær vafra um vefinn og safna þaðan upplýsingum til að skrásetja í gagnagrunna með vísan í uppfletti- eða leitarorð (keywords).


Niðurstöðunum er síðan raðað eftir áætluðu mikilvægi og út frá fyrirfram gefnum forsendum. Því felst árangursrík markaðssetning á vefnum felst í, að fá leitarvélarnar til að raða tiltekinni vefsíðu mjög ofarlega á fyrstu niðurstöðusíðuna. Um það snýst leitarvélabestunin (SEO).


Gagnast leitarvélabestun nokkuð í raun?

Jú, ég hef t.d. á skömmum tíma náð að þrykkja ákveðnum leitarorðum ákveðinnar síðu upp á fyrstu síðu á Google, reyndar aðeins á nokkrum dögum. Vefsíður og lykilorð sem fundust ekki á Google (ekki á fyrstu þremur niðurstöðusíðunum) fyrir viðkomandi vefsetur komu skyndilega fram á fyrstu síðu, stundum jafnvel mjög ofarlega eða efst.


En þetta er vinna. Þetta er púl. Engu er svosem hægt að lofa, því margir þættir koma til sögunnar. En það er vissulega hægt, í flestum tilvikum, að lyfta niðurstöðum ákveðna vefsíðna upp, en það er undir vefsíðueigandanum komið, hversu hátt er hægt að þrykkja síðunni og hvernig forritun og umsjón síðunnar er háttað.

En hafirðu spurningar er þér velkomið að hafa samband.